28.10.03

Jæja þá er mín byrjuð í­ átakinu mikla: "Í gallann fyrir Sjallann" ;o) Fyrsti dagurinn byrjaði nú ekkert allt of vel... Var eiginlega búin að gleyma þessum áformum mínum þegar ég renndi niður morgunmatnum... En svona lí­tur listi gærdagsins út:

Morgunmatur: Karamellujógúrt með Cheerios, úbbs :oÞ
Hádegismatur: Enginn
Kaffitími: Ekkert
Kvöldmatur: 1x afmælisveisla pabba af bestu gerð (réttlætti það með því að ég borðaði ekkert nammi um helgina...)
Vatn innbyrt: Ekkert
Hreyfing: Sjúkranudd (telst það ekki annars með???)

Þetta gæti nú litið betúr út...

Í morgun vaknaði ég klukkan hálfátta!!! Slí­kt gerist nú ekki nema endrum og sinnum... Og Emelí­a var komin á leikskólann á slaginu ní­u!!! Eins og fyrri daginn þá gerist það ekki heldur oft ;o) Svo mín ákvað að vera rosa dugleg og skella sér í sund! Var eiginlega með samviskubit yfir morgunmatnum sem var skál af Coco Pops, ég elska Coco Pops og stóðst ekki freistinguna þegar ég sá að mamma hafði fjárfest í­ einum slí­kum pakka :oÞ Listi dagsins lítur örlítið betur út:

Morgunmatur: 1 skál Coco Pops, ahh!
Hádegismatur: Kea vanilluskyr með Fitness kornflögum og létt mjólk, dugleg!
Snarl: 1 Pera
Kaffi: 1 biti skúffukaka og léttmjólk með, æi.....
Kvöldmatur: Bollur í súrsætri sósu og hrísgrjón
Vatn: 1 líter
Hreyfing: 20 ferðir í­ sundi og labbaði í­ vinnuna

Þetta er allt að koma, sem er kannski eins gott því­ að ég er búin að setja mér takmark... Ég ætla að missa 5 kíló fyrir jól!

Helgin var fín... Hún fór að mestu í­ það að græja prinsessuherbergið og flytja fjölskyldumeðlimi á milli herbergja, það skiptu allir um herbergi nema Ragnar! Emelí­a er komin í herbergi Pa&Ma, þau eru komin í­ herbergið mitt og ég er komin í tölvuherbergið... Hvað gerir maður ekki fyrir afkvæmið sitt ;o) Pabbi henti saman rúminu (ég fékk senda löppina af sýningarrúminu úr búðinni!) og ég fór og keypti rosalega fallegan, dökkbleikan lit sem ég skellti á tvo veggi í Míu herbergi, alveg sjálf! Ég er mjög stolt af útkomunni! Set inn myndir fljótlega ef að ég næ að klóra mig fram úr því­...

Það er rosalega skrítið að hafa Emelí­u ekki lengur inni hjá sér... Ég var svo stressuð fyrstu nóttina að við fyrsta uml í henni þá hentist ég fram úr rúminu... Með svo miklum látum að ég hljóp beint á hurðina í herberginu mí­nu og lá kylliflöt!!! Pabba brá svo mikið við dynkinn, hélt að Mía væri dottin fram úr, að hann spólaði af stað með þvílíkum hamagangi að hann vakti mömmu og svo vorum við næstum búin að klessa saman frammi á gangi!!! :oD Í nótt svaf ég svo frammi í­ sjónvarpssófa svo að ég myndi heyra betur í­ henni... Svona getur maður verið móðursjúkur ;o)

Annars hef ég voða lítið að segja, jú hún Eva Signý rúsína er komin með blogg! Það er gaman að sjá­ hvað heimurinn minnkar hratt, nú get ég fylgst með vinkonum mínum víðs vegar um heiminn (og þær með mér)!

Blessi ykkur...

24.10.03

Ég er smám saman að breytast í ófreskju... Fyrst hvarf fína 5 tíma ljósabekkjabrúnkan mín, svo gerðu bólur sig heimakomnar á andlitinu á mér, ég sem hef aldrei fengið nema í mesta lagi eina bólu á tveggja mánaða fresti.... það hlaut að koma að því einhvern daginn!!! Svo eru nýju gallabuxurnar ískyggilega þröngar allt í einu... En það er ekki allt upptalið, o nei! Það versta af þessu öllu er að nú er ég komin með augnsýkingu í vinstra augað... Ég er eins og Quasimodo!!! Ég er sem sagt með Feituna, Ljótuna, Bóluna og Hvítuna, (sjá kvennafræðara Katrínar og Svölu ;o) ) en mér er alveg sama því að ég er hamingjusöm! Já ég held það barasta... Það er ekkert sem að ég myndi vilja breyta í lífi mínu þessa stundina (fyrir utan efnislega hluti en við erum ekki að tala um slíkt). Ég á yndislega heilbrigða dóttur, frábæra foreldra og bróður (þó hann geti stundum verið erfiður, en það er bara hans hlutverk), bestu vinkonur í öllum himingeimnum og yndislegann (finn ekkert nógu sterkt orð yfir hann í augnablikinu) "vin" sem ég nýt þess að vera með... Hvers er hægt að óska sér betra? Það væri nú reyndar ekki verra að hafa ykkur elskurnar hér hjá mér...

Ég ætla nú samt að fara að taka sjálfa mig í gegn! Átakið byrjar á mánudaginn og stendur fram að jólum... Og nú stend ég við það! Í kjólinn fyrir jólin ;o) Ég ætla að leyfa ykkur að fylgjast grannt með, þið verðið aðhaldið mitt svo þið verðið að skamma mig ef að ég verð ekki nógu dugleg!!!

Svo að ég haldi nú áfram með söguna endalausu þá tók pabbi sig til í gærkveldi og púslaði húsgögnunum saman á mettíma, þau eru æðisleg!!! Nákvæmlega eins og ég hefði viljað væri ég tveggja og hálfs árs ;o) En allavega, þegar það kom að því að setja saman rúmið þá kom í ljós að það vantaði eina löppina, þ.e.a.s. það var ein vitlaust boruð!!! Kemur mér sossem ekkert á óvart miðað við mína "heppni"... Nú á bara eftir að koma í ljós hvort hægt verði að útvega rétta löpp einhvern tíma fyrir jól! Ég leyfi ykkur að fylgjast með...

...Já og blómarósin Berglind er komin með blogg!

Það er Idol kvöldið í kvöld...trallallala (raulað við auglýsingastefið það er Daloon dagur í dag). Hlakka til að eiga helgarfrí í sukki og svínaríi... (síðasti séns)

Gangið hægt um gleðinnar dyr...

Svalan ykkar ;o*

22.10.03

Ég er svo montin af sjálfri mér núna... Bara komin með linka og alles!

Jæja sagan endalausa heldur áfram... Ég fékk loksins húsgögnin hennar Emelíu, 9 kassa af einhverju sem á víst að vera rúm, stólar og borð...ég fæ pabba til að líta á þetta, ég held nebbla að honum finnist gaman að setja saman dót! Allavega rauk hann alltaf til: "Þarf að setja þetta saman?! Koddu með þetta", tók af manni leiðbeiningarnar og var búin að þessu á mettíma, sbr. fermingarhúsgögnin ;o) En það vantaði helv.. rúmdýnuna!!! Þetta er ótrúlegt... Ég hringdi nottla strax í búðina og fékk samband við konuna sem afgreiddi mig: "Góðan daginn, Svala heiti ég... Ég var nú loksins að fá húsgögnin en það vantar dýnuna!" Hún bara tók andköf og jesúsaði sig í bak og fyrir, ætlaði bara að henda þessu á póstinn eins og skot og borga kostnaðinn og allt! hehehe... Ég man hvað maður skammaðist sín fyrir þegar að mamma var að tuða í verslunareigendum yfir því að peysan sem ég keypti mér á 5000 kall var með saumsprettu... Gera við þetta takk! Sé það í dag að maður verður að standa fast á sínu og nota það sem maður hefur rétt á! Býst við að ég eigi svolítið af grybbunni hennar mömmu í mér...

Emelía er sko orðin frísk!! Hún tók nett "er búin að fá nóg af því að vera heima" kast í gærkvöldi... Reif og tætti allt, þeytti perlum eins og verið væri að skjóta í hríðskotabyssu og öskraði svo bara á mig! Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að vera, ég var svo hissa! Það þýddi ekkert að byrsta sig, hún varð bara æstari við það, svo að ég settist niður með dagblaðið og ég lét sem ég sæi hana ekki... Viti menn, hún steinhætti eftir smástund!

Ég átti frábæra kvöldstund í gær, held barasta að ég sé að læra að slappa af ;o) Eftir að ég kom villidýrinu í rúmið opnaði ég ískaldan bjór og settist fyrir framan tölvuna. Ég var ein heima og það ríkti algjör þögn í húsinu! Það gerist ekki oft... Spjallaði aðeins við hana Kötu mína, sem var mjög gaman af því að ég hafði ekkert heyrt í henni eftir að hún fór aftur út. Fékk síðan heimsókn og glápti á imbakassann í góðum félagsskap...

Mig langar í íbúð... En til þess þarf peninga, sem ég á ekki! Af hverju þarf að vera svona dýrt að leigja??? Ég þarf bara að vera dugleg að borga niður yfirdráttinn og þá get ég farið að leigja mér í vor...

Fékk martröð í nótt!!! Er eiginlega enn að jafna mig eftir það...hef ekki fengið martröð í mörg ár. Í grófum dráttum þá var gerð loftárás á Akureyri, þetta var mjög blóðugt og raunverulegt! En það sem martröðin snérist um var að Emelía var í pössun hjá langömmu sinni og ég komst ekki til hennar og vissi ekki hvort að húsið þeirra hefði orðið fyrir sprengju! Skil ekki hvað veldur þessu, ég hef ekki horft á stríðsmynd í háa herrans. Ég vaknaði grátandi...

20.10.03

Jibbí! Það tókst, ég er snillingur!!! :oD Muhahahaha..... Þá er bara spurning um að reyna að setja linka á bloggið...

Arg...! Þetta commentakerfi verður greinilega að bíða seinni tíma þar sem ég hef ekki næga þolinmæði til að brasa við þetta lengur! Annars er það að frétta af mér að ég er heima í dag því Mía Mús er lasin :o( Sossum ekkert alvarlegt, hún fékk augnsýkingu á leikskólanum og nú eru augun í henni eins og hún hafi ekki sofið í marga daga; eldrauð, þrútin og graftrarklístruð..ojjj Með þessu fylgir svo hiti og kvef. Ég kenni í brjóst um hana greyið, ekkert skrítið að hún sé soldið pirruð... Hver yrði það ekki ef að hann sæi ekki almennilega út úr augunum og haldið heima hjá mömmu gömlu í þokkabót!! Ég er búin að halda að henni alls konar verkefnum í dag: Við erum búnar að lita, perla, leira, sulla, horfa á sjónvarp osfv... Svo er þessi elska líka búin að "laga til" fyrir mig, það er allt í rúst hér!!! Hehehe... Þetta er samt búið að vera voða gaman og kósý hjá okkur, svona quality time... Hugsa að það freisti mín samt sem áður ekki að vera heimavinnandi húsmóðir, ekki illa meint ;o) Speaking of... Veikindapésinn minn er að rumska, ætla að reyna að koma einhvejum mat oní hana...

Har det bra, S.

Eða ekki! Þetta er e-ð ekki alveg að takast hjá mér...

Jæja, þá er mín komin með commenta kerfi... Endilega látið skoðun ykkar í ljós!

18.10.03

Ummm... Þetta var ljúft, ahhh... Nei, þessar stunur eru ekki af kynferðislegum toga, því miður! Ég var að renna niður fyrsta kaffisopa dagsins, það er ekkert betra en að fá sér Sviss Mokka til að rífa upp á manni augnlokin! (nema kannski tannstönglar, en ég mæli ekki með því) Já, ég er þreytt... Af hverju myndu sumir segja, jú það er vegna þess að ég var að vinna í nótt. Ég fékk símhringingu í gær frá fyrrverandi yfirmanni mínum á veitingastaðnum Friðrik V (hætti þar í ágúst). Hún var í ægilegum vandræðum með helgina, vantaði víst manneskju á vakt á föstudags- og laugardagskvöld... Hún var ekki búin að bera upp bónina þegar að ég sagði JÁ, ekkert mál! Ég skal vinna!!! Sú var tíðin að ég hefði þurft að hugsa mig um hvort að ég vildi virkilega fórna áformum helgarinnar fyrir vinnu, en nei... Mig LANGAÐI til að vinna, gat hreinlega ekki hugsað mér að hafa ekkert fyrir stafni á föstudagskvöldi; ráfandi eirðarlaus um híbýli gamla settsins (því ég á ekki sjálf íbúð), límd við tölvuskjáinn (sem pabbi og mamma eiga líka), krúsandi um götur bæjarins á bíl foreldra minna (hvað annað?), eða það sem verrra er... Sofnuð fyrir kl. 21:00, og ég á rúmið ekki einu sinni sjálf!!! Ég frekjaðist til að fá gestarúmið sem að þau keyptu undir sjálfa mig þar sem að minn garmur var orðinn frekar þreyttur eftir að hafa þjónað mér (og öðrum) frá fermingu ;o) Ég verð að fara að læra að slappa af...

Ég var semsagt að vinna til tvö í nótt, og skemmti mér ágætlega! (já ég veit ég er sorgleg) Kveikti á Idol þegar ég kom heim... Má ekki missa af þætti!!! Þetta er langbesta innlenda sjónvarpsefni sem hefur verið framleitt, þetta er miklu betra en bandaríska Idol! Klippingin er svo flott og kynnarnir góðir, svo er bara svo frábært að fylgjast með því hvað sumir hafa miklar ranghugmyndir um sönghæfileika sína og eru bara alveg hissa á því að dómnefndin (Bubbi, Sigga Beinteins og Þorvaldur Bjarni) sitji ekki bara með kjálkan niðrá gólf af undrun yfir stórkostlegum hæfileikum þeirra! Sumt fólk sko... Svo eru aðrir sem að maður fær alveg gæsahúð yfir og þá er sko gaman! Þá lifi ég mig alveg rosalega inn í þetta og er samstundis komin í spor þess sem stendur á sviðinu og er algjörlega að meikaða! Hvað ef ég hefði ekki veikst...? Hehehehe, smá stjörnudraumar ;o) Það var aðeins sýnt frá Ernu Hrönn, þeir Jói og Simmi vildu reyndar endilega nefna hana upp á nýtt og kölluðu hana Ernu Margréti!! Ég færi í mál við stöð 2 ef að ég væri hún... Bara verst að hún fengi ábyggilega ekkert út úr því nema kannski smá eignarhlut í SKULDUM Norðurljósa, hehe :o) Erna er ein af þeim sem að maður fær gæsahúð yfir, eins og þið sem voruð í MA og hlýdduð á hljómfagra rödd hennar vitið. Hún stóð sig með prýði og er skrautfjöður Akureyringa í þessari stjörnuleit, hún á eftir að komast langt með sína útgeislun... Það er ég viss um! :o) Svo eru líka Anna Katrín (söngvakeppni framhaldsskólanna 2003) og (Jóhanna) Vala systir hans Kjartans enn inni, við erum komin niður í 32 úr mörg hundruð manns! Anna Katrín fékk alveg spes treament í Akureyrarþættinum... Það var frekar klént að mínu mati, það voru sýndar myndir af henni að labba í skólann, spila á flygilinn á Gamla sal MA og svo í garðinum heima hjá sér... Hún var spurð hvers vegna hún ætti að verða næsta Idol og jú jú, hún átti svö á reiðum höndum: "Ég tel mig vera góða fyrirmynd...ég hef það sem verið er að leita að og ég er tilbúin að leggja mig alla í þetta verkefni!" Hún tekur þetta SKO alvarlega! Vala er síðan glennan í þáttunum og hefur eflaust kitlað hláturtaugarnar hjá ófáum (og hneykslað jafn marga) með hispursleysi sínu! Hún og Erna taka þessu svona passlega alvarlega, eru í þessu til að hafa gaman af :o)

Fyrir þá sem ekki vita þá fór ég sumsagt í Idol....Og komst áfram! Það voru 10 af um 100 manns sem komust áfram héðan frá Akureyri, svo ég var bara nokkuð ánægð með sjálfa mig þó svo að ég væri bara að gera þetta upp á grínið...að mestu leiti ;o) Blundar það ekki í okkur öllum að vilja frægð og frama? Helgina eftir var svo haldið í höfuðborgina til að sigra heiminn! Hehe... Ég fór með síðustu vél á föstudagskvöldi og átti að vera mætt klukkan átta á laugardagsmorgninum á hótel Loftleiðir til að taka þátt í stjörnuleitinni. Rúnar besti frændi minn og Ása Vala, nýjasta parið í bænum (allt mér að þakka!) voru svo elskuleg að sækja mig á flugvöllinn og keyra mig á veitingastaðinn Sommelier þar sem Ragnhildur elskan beið mín með þríréttaðann matseðil og rauðvín!! Ummm... Hvað hef ég eiginlega gert til að verðskulda svona treatment??? Við áttum saman yndislega kvöldstund og ég var komin heim til Ásu og Rúnars tiltölulega snemma, e-ð um tvöleytið held ég, enda stór dagur framundan. Nú það skipti engum togum að um nóttina var ég farin að hríðskjálfa og svitna til skiptis, með dúndrandi höfuðverk og ælandi og spúandi! :o( Ég fór að sjálfsögðu ekki í áheyrnina. Svona fór um sjóferð þá...ég verð bara að vera óuppgötvuð stjarna enn um sinn ;o) Og þó...kannski ekki alveg óuppgötvuð því að ég var fyrir sunnan helgina sem að Akureyrarþátturinn var sýndur, fór til að sletta ærlega úr klaufunum í tilefni þess að Kata Kani kom í stutta heimsókn hingað á klakann :o) Við vorum sem sagt á djamminum á bæði laugardags- og föstudagskvöld (hvað annað?), og bæði kvöldin lenti ég nokkrum sinnum í því að bláókunnugar manneskjur löbbuðu upp að mér og HEY! Varst þú ekki í Idol?! Það komu nokkur stutt myndbrot með mér í þættinum þar sem ég var frammi á gangi að syngja og hafa gaman með Ernu og fleirum á meðan við biðum! Ég er greinilega svona eftirtektarverð! Hehehe... Verð að játa að ég hafði lúmskt gaman af þessari athygli ;o) Annars var umrædd helgi algjör snilld! Ása Vala, Berglind, Eva Signý, Hildigunnur, Kata og Ragnhildur: Takk fyrir helgina stelpur, þetta var frábært!!! Gaman að fá smá tilbreytingu frá mömmuhlutverkinu og fara á ekta stelpudjamm ;o)

Í nótt eftir að ég sofnaði loksins, var svo upptrekkt eftir vinnuna og niðursokkin í Idol, var ég vakin við símhringingu!!! Ég get svo svarið það, nú ég fer og kaupi mér vekjaraklukku og slekk á símanum áður en ég fer að sofa! Í þetta skiptið var það minn fyrrverandi, þ.e.a.s. sá síðasti sem hlotið hefur þá nafnbót ;o) Ég ákvað að svara ekki og kæfði hringinguna í koddann minn... Hvað er eiginlega í gangi??? Mér er hætt að finnast þetta fyndið, þegar maður vill fá athygli þá er nákvæmlega ekkert í gangi og þegar maður vill fá að vera í friði og er sáttur með sitt þá allt í einu vakna þessir asnar og gera manni lífið leitt... Kannski er þetta bara svona þegar maður er á lausu (jaa, allavega að nafninu til...þetta er efni í sér kapitula út af fyrir sig og ég er að hugsa um að sleppa honum að sinni), ég kann bara ekkert á þetta single líf?

Ég er brjáluð!!! Ég er brjáluð fyrir hönd allra landsbyggðarbúa og neytenda!!! Ég fann loksins draumahúsgögnin í herbergið hennar Emelíu Kolku eftir langa og stranga leit. Og þetta er ekkert grín! Ég er semsagt að innrétta fyrsta herbergi dóttur minnar og ég tek það verkefni mjög alvarlega...Það skal verða fullkomið! Ég keypti háa rúmið með leiksvæðinu undir og svo bekkinn og stólana og alla mögulega fylgihluti, allt í stíl að sjálfsögðu! Herlegheitin fást í stórri verslun á höfuðborgarsvæðinu sem sérhæfir sig í barnavörum, og kostar pakkinn um 60.000. Fyrst var dótaríið nú ekki til og þurfti ég að bíða í 3 vikur, svo koma þetta nú loksins og þá kom ekki allt sem að ég pantaði (vantar pylsupúðana!), svo var víst einhver misskilningur og það gleymdist að taka frá rúmið og það varð næstum uppselt! Nú jæja, það reddast fyrir horn og ég hringdi á fimmtudaginn til að ganga frá þessu öllu saman, ætlaði að skipta þessu í fernt með Vísa léttgreiðslum (engir vextir þið vitið), en nei! Þær eru ekki með svoleiðisr bara Vísa rað og ekki ætla ég nú að fara að borga einhverja vexti ofaná færslugjöld ofaná öll möguleg önnur gjöld! Svo ég greiddi þetta með einni greiðslu á Visa í gegnum símann þó svo að það hentaði mér verr, ég fer þá að spyrja hana út í staðgreiðsluafsláttinn, því þetta var jú greitt með einni greiðslu og í dag er litið á það sem staðgreiðslu. Þá tjáir hún mér það að það sé ekki veittur staðgreiðsluafsláttur þegar greitt er með Visa, en að staðgreiðsluafslátturinn sé annars heil 5% Vááá.. Ok, svo barst nú talið að því hvernig ætti að koma þessu í sveitina, ég spurði hvort að þau sæu ekki um það? Ég meina, svona stórt fyrirtæki sem sendir vörulista út á land hlýtur að bjóða upp á einhverja flutningsþjónustu... O nei, ekki aldeilis! Þau gætu gert mér rosa greiða og komið þessu á Landflutninga fyrir mig en svo tæki ég við, ég á að sjá um að borga flutningskostnaðinn sem er by the way u.þ.b. 9000 kr.- Ég benti henni á það að ég væri að versla vörur fyrir rúm 60.000 og að mér finndist það sjálfsagt að fyrirtækið greiddi flutningskostnaðinn. Þá kom hún með það að það hefði komið maður um daginn sem var að Austan og hann verslaði sko fyrir 150.000 og borgaði flutningskostnaðinn alveg sjálfur... Þá sauð nú á minni spurði hana hvort að maður gæti virkilega ekki fengið almennilega þjónustu nema maður verslaði fyrir mörg hundruð þúsund krónur og hvort að landsbyggðarfólki væri virkilega svona mismunað?!?! Ekki nóg með það að við séum á lægri launum, heldur þurfum við líka að borga miklu meira fyrir sömu vörur og þjónustu og höfuðborgarbúinn!! Þá varð hún ægilega blíð og góð og sagði: "Veistu, ég skal bara stelast til að gefa þér staðgreiðsluafslátt, ha?" Það er nú meiri greiðinn, manneskjan barasta stofnaði starfi sínu í stórhættu og það allt fyrir mig! Ég nennti ekki að þrasa lengur enda í vinnunni og gat ekki verið að standa í svona löguðu, bað hana vinsamlegast að henda þessu á bíl fyrir mig svo að þetta yrði komið á föstudeginum... Nei því miður, það var ekki hægt að setja þetta á bíl fyrr en á föstudag og ég gæti náð í þetta í dag (laugardag). Hvað haldiði? Ég hringdi klukkan níu í morgun í landflutninga til að athuga hvað væri opið lengi og bað konuna í leiðinni að athuga til öryggis hvort að þetta hefði ekki komið... Nei, ég átti engann pakka hjá þeim!! Svo ég hringdi í BabySam til að athuga hvort að þetta hefði ekki örugglega farið á bíl í gær, þetta hlytu að vera einhver mistök hjá Landflutningum. Þau höfðu allan föstudaginn (til kl.17:00) að koma þessu á bíl og ég fékk þau svör að það hefði ekki náðst!!! Svo þið kannski skiljið núna af hverju ég er brjáluð...

Jæja, ég ætla að hætta þessu þvaðri enda klukkan að ganga fjögur og ég þarf að fara að loka Vodafonebúllunni.. Ætla heim í sturtu og svoleiðis og svo á Friðrik V, væri reyndar alveg til í að taka því rólega í kvöld en...

Góðar stundir, S.

17.10.03

Í dag er ég bæði þreytt og pirruð vegna þess að ákveðinn, ónefndur karlkyns aðili ákvað að gera sitt besta til að ég fengu lítinn, eða engann nætursvefn!!! Hvað á það að þýða að vera að hringja og senda sms svona um miðjar nætur??? Læt heyra betur í mér kvöld þegar ég er búin að koma Míu mús í rúmið... Ég þarf svo sannarlega að létta á hjarta mínu og hef hvort eð er ekkert betra að gera á föstudagskvöldi en að sitja fyrir framan tölvuna...

11.10.03

Ég held að ég sé að verða gömul...eða allavega heldur kroppurinn minn það!!! Ég er sem sagt í vinnunni núna og get varla staðið í lappirnar vegna verkja í hnjánum, iljunum og bakinu! ...Bara af því að ég og Kata kíktum aðeins á lífið í gærkvöld, og ég sem dansaði varla!! Þetta nær nottla engri átt... Þar sem að heilsan er ekki upp á marga fiska í dag er ég að hugsa um að láta þetta duga að svo stöddu og halda áfram að sitja á rassinum (af því að ég get ekki staðið!) og telja mínúturnar þangað til ég er búin, en þær eru alltof margar....................................................

3.10.03

Jæja, þá er Svala komin með blogg... Datt þetta snjallræði í hug á meðan ég var að surfa á netinu í "vinnunni" hehehe... Veit sossum ekki hvernig viðtökur það fær, kannski er einhver þarna úti sem hefur áhuga á að fylgjast með litlausu lífi mínu... Eða er það kannski ekki svo litlaust? Það kemur allt í ljós...