24.4.07




28.4.05

Sagan af dramatískustu meðgöngu EVER:

Jæja nú ætlar hún ég loksins að fara að taka þessa síðu í gagnið því það styttist víst óðum í að púkinn fari að láta sjá sig (þó að mér finnist það heil eilífð), og þá vill fólkið í kringum okkur fá að fylgjast aðeins nánar með. Fram að þessu hefur enginn vitað af þessari síðu og því hefur ekki verið mikið um uppfærslur en nú verður breyting á!
Frá því í lok janúar hefur ég fengið lungnabólgu, uppköstin byrjuðu aftur og yfirlið uppúr því sem leiddu til heimsóknar á bráðamóttöku, allra mögulegra rannsókna vegna gruns um flogaveiki og að lokum innlagnar á meðgöngudeild! Sem betur fer kom ekkert útúr öllum þessum rannsóknum nema það að ég var með mikinn járnskort, blóðlítil og með mikla vöðvabólgu sem jók á mígrenið mitt. Ég var útskrifuð af spítalanum á Skírdag og hélt stórfjölskyldan þá á leið norður yfir heiðar í afslöppun og fitun yfir páskana. Allt þetta hafði þó engin áhrif á púkann, það sannaði vaxtarsónar sem að ég fór í eftir páskana en hann sýndi að púkinn er vel yfir meðallagi stór eða 5 merkur og verður að öllum líkindum á bilinu 16 til 20 merkur þegar hann/hún fæðist, púff!!! Átveislan um páskana ásamt mikilli drykkju járnmixtúru og slatta af norðlensku lofti hressti mig heldur betur við og nú borða ég út í eitt, jæks!!! :o/
Svona til að halda dramatíkinni áfram þá var ég send uppá fæðingardeild í síðustu viku vegna mikilla samdráttarverkja sem voru búnir að halda fyrir mér vöku tvær nætur í röð. Eftir að hafa verið sett í monitor og skoðuð af fæðingarlækni var ég send heim með fyrirmæli um að taka því rólega út vikuna, semsagt engin vinna... Læknirinn sagði líka að púkinn væri komin(n) í höfuðstöðu og búin(n) að skorða sig, kannski fullsnemmt en allur er varinn góður! Þess vegna finndi ég stöðugt fyrir þessum þrýstingi. Ég dreif mig bara norður með Emelíu daginn fyrir Sumardaginn fyrsta til að fara í fermingu hjá Hildu frænku en Árni var skilinn eftir heima því að hann er í miðjum prófum. "Litli" bróðir átti einmitt afmæli sama dag og við komum norður eða þann 20., til hamingju með það! Ég stoppaði þar í 5 daga, fór í fermingu og át á mig gat, brallaði ýmislegt með gríslingunum eins og að fara í sund og horfa á skautasýningu hjá Elvu en það þarf varla að taka það fram að hún stóð sig eins og stjarna (sem hún er nottla) og svo stalst ég líka aðeins til að hjálpa mömmu í skóbúðinni og stóðst að sjálfsögðu ekki mátið með að fá mér geggjuð kúrekastígvél! ;o)

Á mánudaginn (25.04) var mæðraskoðun en vegna alls sem hefur gengið á var ég flutt úr mæðraeftirlitinu í Hafnarfirði til Miðstöðvar mæðraverndar inn í Reykjavík þar sem að við höfum farið í skoðun til ljósmóður og sérfræðings síðustu 6 skiptin. Árni komst með í þetta skiptið því að það er prófavika hjá honum. Ásu ljósmóður og Þóru lækni leist miklu betur á mig núna, sögðu að ég væri loksins farin að blómstra :o) Skoðunin kom mjög vel út, ég er búin að þyngjast um heil 4 kíló frá því síðast (04.04), blóðþrýstingurinn í lagi, púkinn er enn í höfuðstöðu og skorðaður/skorðuð, legbotninn hefur hækkað um 2 1/2 cm og er nú 28,5 cm og hjartslátturinn hjá krílinu var flottur eða á bilinu 124-148, er það stelpu- eða strákalegur hjartsláttur..? ;o) Ljósmóðirin, læknirinn og Árni vildu öll að ég myndi hætta að vinna svo ég gat ekki annað en fallist á það og er því bara komin í laaangt frí... Ég ætla að fara að finna sér e-ð að dunda við á meðan ég bíður eftir púkanum eins og t.d. að prjóna handa honum/henni teppi og undirbúa komu hans/hennar, en við vorum sem betur fer ekkert byrjuð á því.

Vonum nú bara að dramatíkinni fari að ljúka og að það sem eftir er af þessari meðgöngu gangi sem allra best :o)

7.1.05

Gleðilegt nýtt ár!

Þá eru jólin á enda og ég vona að þið hafið öll notið þeirra í botn eins og ég! Ég sendi engin jólakort í ár og biðst velvirðingar á því og vil nota tækifærið og óska ykkur í leiðinni gleðilegrar hátíðar og ég vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt og farsælt :o) Ég borðaði semsagt eins og svín um jólin (á minn mælikvarða), ældi ekkert en tókst samt einhvernveginn að léttast um 1 kíló??? Ég er farin að hallast að því að ég gangi með risa sem sýgur frá mér alla næringu ;o)

Litla fjölskyldan fluttist búferlum á sunnudagskvöldið og gekk ferðin vel þó svo að hún hafi verið löng og ekki sést á milli stika frá Borganesi til Reykjavíkur... Hetjan ég elti bara þokuljósin á Munda sem Árni stýrði blindandi á undan mér. Hann Mundi er 11 ára forláta Toyota Camri sem bróðir pabba átti. Nafnið er tilkomið vegna þess að pabbi gaf Árna bílinn í heimanmund... Það er naumast að hvað gamla settið var orðið despret að losna við mann af heimilinu, menn eru barasta leystir út með bílum fyrir það eitt að draga mig suður. Hvar er bónorðið ég bara spyr?!? Hehehe ;o)

Borg óttans leggst bara ágætlega í mig ég er þó ekki frá því að það votti örlítið fyrir heimþrá... Pabbi og mamma hringja daglega og skæla yfir því hvað það sé tómlegt hjá þeim og mamma segist þurfa að fá sér nýja vinkonu því að hún hafi misst bestu vinkonu sína, dóttur og barnabarnið á einu bretti... Emelía plummar sig vel á leikskólanum, lætur eins og hún hafi alltaf verið þarna og meirasegja búin að eignast vinkonu sem heitir Eva. Ég byrja að vinna á mánudaginn í verslun Og Vodafone í Síðumúlanum, þið megið endilega koma við og kíkja á stelpuna ;o) Það er loksins búið að undirrita kaupsamninginn og allt klappað og klárt! Við fáum íbúðina reyndar ekki afhenta fyrr en 1. febrúar, ekki amaleg afmælisgjöf það :o) Við höfum það reyndar mjög gott hérna í Skipholtinu hjá Lindu systur hans Árna, Dodda kærastanum hennar og 1 árs syni þeirra Erik Maron. Þetta er fín æfing fyrir Emelíu, henni finnst sko ekki leiðinlegt að stjórnast í honum og hann lætur sér það bara lynda vel.

Ætli ég láti þetta þá ekki bara duga í bili,

Adios amigos ;o)

19.12.04

Nú verða sagðar fréttir:

Heil og sæl öll sömul! Í fréttum er þetta helst:

Við erum búin að fá lán fyrir íbúðinni, svo nú er þetta allt að verða að veruleika. Litla "stórfjölskyldan" flytur því í Þúfubarð 17, íbúð 301, Hafnarfirði þann 1. febrúar (á afmælisdaginn minn)!!! Við stefnum að því að flytja suður 2. janúar og verðum á einhverjum flækingi á milli vina og vandamanna á meðan við bíðum eftir að fá afhent. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvað það er stutt í þetta því að ég er ekki einu sinni byrjuð að pakka! :-/

Ætli það sé ekki best að hætta að tala undir rós og tilkynna það bara formlega að við erum búin að setja köku í ofninn og er áætlað að nýjasti erfinginn láti sjá sig í kringum miðjan júní! :o) Af þeim sökum hefur heilsan ekki verið upp á sitt allra besta og ég er farin að þekkja í sundur allar algengustu tegundir klósettskála með því einu að líta oní þær... Ég er búin að léttast um 9 kíló og búin að leggjast tvisvar inn á sjúkrahús til að fá næringu í æð en þetta er nú allt að lagast núna, 7 9 13, og ég er meira að segja búin að þyngjast um hálft kíló síðan ég fór heim af sjúkrahúsinu fyrir 2 vikum síðan. Við erum búin að fara í sónar og fyrstu mæðraskoðunina og það lítur allt mjög vel út. Krílið sýndi sig á alla kanta, spiklaði, saug á sér puttann og teygði út alla skanka. Þið getið fylgst nánar með þeim málum á þessari síðu.

Verið bless og ekkert jólastress! :o)




14.12.04

Hver á þessa bumbu???

25.11.04

Ég þoli ekki sjúkrahús!

Ég þoli ekki lyktina þar og það að maður sé vakinn klukkan hálf átta á morgnana til að mæla blóðþrýstinginn. Ég þoli ekki hvað matartímarnir eru á asnalegum tíma og hvað maturinn er vondur.
Ég þoli ekki hvað manni líður alls ekki eins og heima hjá sér og að geta ekki sofið á næturnar.
Og ég þoli sko alls ekki að það sé sífellt verið að pota í mann með nálum, stela úr manni blóði og troða einhverjum slöngum í æðarnar á manni!!!

En ég býst nú samt við að það sé skárra að þurfa að liggja á sjúkrahúsi í nokkra daga en að fá ekki meina sinna bót. Ekki skilja það sem svo að ég sé vanþakklátt fyrir heilbrigðiskerfið okkar, síður en svo. Mér er bara meinilla við sjúkrahús, veit ekki af hverju...

20.11.04

Afsakið hlé.........

Ætli það sé ekki best að reyna að hrista af sér slenið og fara að blogga aftur, veit sossum ekki hvort að það sé til einhvers... Það eru örugglega allir löngu búnir að gefast upp á að skoða þessa síðu. :-/

Ég hef fréttir!!! Reyndar gamlar fréttir en fréttir engu að síður... Hann Árni minn var einn af 20 sem að komust inn í lögregluskólann, en eins og flestir vita var rosaleg ásókn og ég er því ófeimin við að monta mig af kallinum :o) Skólinn er að sjálfsögðu staðsettur í Reykjavík og því er kallinn að flytja um áramótin......og ég líka!!! Jamm, það hlaut að koma að því að maður flytti í borg óttans. Það er næstum allt klárt, ég byrja að vinna hjá Vodafone fyrir sunnan 10. janúar, stelpan er komin með leikskólapláss og byrjar í aðlögun 4. janúar og skólinn hjá Árna byrjar 5. janúar. Það eina sem vantar er ÍBÚÐ!!! Ég er að verða biluð á þessari húsnæðisleit, við ætlum að kaupa okkur 4. herbergja íbúð, en það gengur bara ekkert upp!!! Við erum búin að finna fullt af íbúðum sem að okkur lýst vel á, enda búin að vera að leita síðan í september, en um leið og við viljum fá að skoða eða gera tilboð þá er barasta búið að selja!!! Það er ömurlegt að vera ekki á staðnum og geta stokkið af stað um leið og e-ð dettur inn. Ég er að segja ykur það að markaðurinn er bara CRAZY, sumar eignir eru ekki nema hálfann daginn á söluskrá og þá eru þær seldar :o( Árni ætlar að fara suður í næstu viku og vera í nokkra daga til að skoða, vonandi dettur e-ð uppí hendurnar á okkur þá... Ef ekki; Er ekki einhver til í að hafa fjögurra manna fjölskyldu inná sér í óákveðinn tíma???

Að öðru leyti er bara allt við það sama. Það tekur sig ekki að fjalla um félagslífið því það er EKKERT!!! Ég er ein eftir hér á eyrinni, fyrir utan hana Berglindi mína Yngvadóttur sem kemur í veg fyrir að ég verði félagslega þroskaheft, og fer varla útúr húsi nema til að fara í vinnuna eða í NETTÓ. Mér tókst meira að að segja að næla mér í þessa fínu ælupesti um síðustu helgi þegar að Kata mín kom til að fara með mér á djammið, þannig að það varð ekkert úr djammi ;o( Ég hef ekki farið á djammið í háu herrans, og það eru ekki ýkjur! Spyrjið hvern sem er...

Ég gæti hins vegar litið á björtu hliðarnar og hugsað sem svo að ég sé loksins farin að standa við áramótaheitin mín. :o) Kannski ekki seinna vænna, árið er víst að verða búið...

1. Ég er hætt að reykja, ekkert gaman að því þegar maður hefur engann til að reykja með.

2. Ég er búin að skila bókasafnsbókunum, fyrir ekki svo löngu síðan og ef að Kata var á svörtum lista hjá bókasöfnum landsins þá veit ég ekki hvað sá listi kallast sem að ég var sett á. Það var allavega sett á mig nálgunarbann enda held ég að ég hafi slegið heimsmetið í að vera alltof lengi með bókasafnsbækur eða eiit og hálft ár! :os

3. Ég er hætt að fara aftur í rúmið þegar ég er búin að keyra Emelíu á leikskólann, núna þarf ég nebbla að fara beint í vinnuna en ég nota klukkutíma matartímann minn til þess að leggja mig.

4. Ég er svo sannarlega búin að drekka miklu meira af vatni en áfengi á síðustu misserum.

5. Ég gerði heiðarlega tilraun til að koma mér í form, byrjaði meira að segja hjá einkaþjálfara en varð að hætta vegna meiðsla. En ég er allavega sátt við vigtina og er sossum ekkert í slæmu formi...

6. Þetta með að mæta á réttum tíma í vinnuna, "ég er bara eins og ég er", eins og stendur í einhverjum textanum :o)

Well, ætli ég segji þetta ekki gott í bili. Ég veit að þetta er gömul lumma en ég skal reyna að vera duglegri við að blogga ;o)