27.2.04

Heeelllúuu!

Það er víst kominn tími til að standa við gefin loforð, hmm.. Betra er seint en aldrei er mitt mottó ;o)

Spánarreisan mikla í grófum dráttum!

Dagur 1: Ég og Ragnhildur vorum mættar í Leifsstöð um eittleytið miðvikudaginn 4. febrúar, áttum flug til London klukkan 15:00. Að sjálfsögðu byrjuðum við húsmæðraorlofið á því að setjast niður og fá okkur bjór. Að því loknu fórum við í verslunarleiðangur þar sem að Ragnhildur endurnýjaði snyrtiveskið sitt, en ég lét mér nægja að versla íslenskt nammi handa Berglindi og það allra nauðsynlegasta í flugið: Mini snafsa!!! Í fríhöfninni rákumst við líka á hana Evu Maríu sem var einmitt að fara í sama flug og við. Eftir að við höfðum heilsast stundi Eva upp: "Jæja, þá er víst úti um edrú ferðalag!" Hehehehe, enda var næsta skref að halda aftur á barinn og drekka meiri bjór ;o) Við ákváðum að drattast af stað eftir að lokaútkall hafði verið gefið út og okkur til mikillar mæðu komumst við að því að hliðið okkar hefði ekkki mögulega getað verið lengra í burtu!!! Þannig að við hlupum...

Sjónin sem blasti við okkur þegar við litum útum rúðuna á landganginum og innum framrúðuna á vélinni fékk okkur til að umturnast samstundis úr móðum og másandi skessum í sætar, 15 ára, flissandi stelpur... Hann var nebbla ekkert ómyndarlegur ungi flugmaðurinn sem brosti til okkar, og þið vitið nú allar hvað menn í júníform eru heillandi ;o) Ég var komin með fullkomið plan til að koma mér inní flugstjórnarklefann... Ég ætlaði að segjast vera óstjórnlega flughrædd og segja við einhverja flugfreyjuna að mér liði örugglega miklu betur ef að ég fengi að fara inn til flugmannanna og sjá hvernig þessu væru nú öllu stjórnað ;o) Um leið og ég heyrði flissað fyrir aftan mig rann upp fyrir mér að planið mitt var runnið út í sjóinn, fyrir aftan mig í röðinni stóðu nefnilega allar flugfreyjurnar!!! Þar sem að við höfðum rekist á Evu ákváðum við að afsala okkur sætunum okkar sem voru á besta stað í vélinni til að við gætum allar setið saman. Við fikruðum okkur því í gegnum ganginn með stingandi augnaráð allra hinna farþeganna sem voru löngu sestir á okkur og settumst aftast í vélina.

Við létum okkur ekki leiðast í fluginu, fengum okkur meiri bjór og alveg hreint frábært sprite!!! Það var sumsé álitlegasta blandið sem var í boði og útí það laumuðum við gini, malibu og rommi þannig að úr varð það besta Sprite sem að við höfðum smakkað!!! Við vorum svo heppnar að Eva María var með spil í töskunni og skemmtum við okkur konunglega við að spila e-ð spil sem að mig grunar að Ragnhildur hafi fundið upp... Allavega tapaði ég! Við lentum á Stansted um sexleytið rúmlega hálftíma á undan áætlun, enda kannski eins gott því við vorum orðnar "pínu" kenndar ;o) Þegar farangurinn var búinn að skila sér kvöddum við Evu sem ákvað að fara á gistiheimili í Stansted þótt við værum búnar að bjóða henni gistingu á hótelinu okkar í London, og hoppuðum uppí Stansted Express sem að flutti okkur til London. Á aðallestarstöðinni tókst okkur að finna rétta Underground til miðborgar London og þá var bara eftir að rata af stoppustöðinni á Hótelið, við höfðum reiknað út af kortinu hvar væri best fyrir okkur að fara út og að þaðan væri bara smáspölur á Hótelið... Eftir að við vorum búnar að dröslast dauðþreyttar nokkrar ferðir upp og niður Bayswater í leit að hótelinu okkar fundum við það loksins vel falið í ómerktri hliðargötu.

Hótelið var bara fínt miðað við það að við borguðum bara smotterí fyrir nóttina, herbergið var allavega hreint og við vorum með okkar eigið baðherbergi. Það voru meira að segja 3 rúm svo að Eva hefði léttilega getað gist. Þegar við vorum aðeins búnar að fríska okkur og skipta um föt, héldum við til Notthing Hill á frábæran veitingastað sem er ská á móti bókabúðinni úr myndinni Notthing Hill. Við borðuðum frábæra máltíð í flottu umhverfi og sögðum varla stakt orð sökum ferðaþreytu og að ég held timburmanna ;o) Eftir góðan göngutúr lögðumst við uppí rúm og steinsofnuðum...

Þetta var nú miklu ýtarlegra en ég hafði hugsað mér, hugsa að ég geri bara framhaldssögu úr þessu og haldi áfram á morgun ;o)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home