19.1.04

Jæja ætli það sé þá ekki kominn tími til að hrista af sér jólaslenið og blása rykið af lyklaborðinu, enda janúar vel hálfnaður...

Jólin voru yndisleg í alla staði, letipúkinn í mér fékk algjörlega að vera í friði fyrir öllu sem heitir vinna, tiltekt, eldamennska o.s.f.v. Aðfangadagur fannst mér samt soldið erfiður og skrítinn, Emelía var nefnilega hjá pabba sínum... Ég var hálf utan við mig við hátíðarborðið og fannst það allra mikilvægasta vanta, ég var því ekki lengi að hendast út úr dyrunum þegar að Ingvar hringdi um átta leytið og bauð mér að taka hana :o) Við vorum að opna pakka til rúmlega ellefu, þvílíkt var pakkaflóðið. Það þarf tæpast að taka það fram að Emelía átti svona 3/4!!!

Það var dásamlegt að geta eytt hátíðunum (djammað) í faðmi vina sinna sem að maður sér ekki mikið af, takk stelpur fyrir yndislegar samverustundir!!! Ég er svona smá saman að trappa mig niður í djamminu, tekur sig samt varla því framundan er afmælið mitt og spánarreisa!!! Já ellin er að færast yfir mann hægt og bítandi, mín eigin móðir fékk næstum áfall þegar hún uppgötvaði að ég væri að verða 23 ára!!!! Úff... Get ekki að því gert að finnast ég hálf glötuð, komin vel á þrítugsaldurinn og engu búin að áorka. En sjáið bara til, það rætist úr mér einhvern daginn... Hugsa að það endi með því að ég verði yfirmaður fréttastofu Stöðvar 2! ;o) Annars lít ég hýru auga til starfs flugfreyja... Það var verið að auglýsa sumarstörf hjá Icelandair og ég er að hugsa um að láta reyna á það. Fyndið, það var tekið skýrt og greinilega fram að MYND yrði að fylgja... Ætli maður geti ekki gleymt þessu strax fyrst að maður er ekki með neinn fegurðardísartitil á ferilskránni...

Já það styttist í langþráð ferðalag mitt til Spánar... Ég og Ragnhildur ætlum að skella okkur í þessa ævintýraferð þann 4, feb n.k. Fljúgum út til Stansted, tökum lest þaðan til London og eyðum nótinni á einhverju hóteli (uppástungur vel þegnar), lest til Stansted morguninn eftir, flug til Valladolid og svo að lokum lest til Madrid til okkar elskulegu Berglindar. Verðum í góðu yfirlæti hjá henni fram til 9. feb (afmælið hennar Berglindar). Það verður því tvöföld ástæða til að fagna, heil 46 ár sem þarf að halda uppá. Og ég get alveg lofað ykkur því að það verður gert með stæl! Ég verð samt að viðurkenna að ég er að fá smá hnút í magann yfir þessu öllu saman, þetta virkar e-ð svo flókið þegar maður setur þetta svona niður á blað. Ekki bætir heldur úr skák að ég fékk rosalega martröð um ferðina í nótt... Það fór hreinlega allt úrskeðis og endaði með því að við vorum fangelsaðar í viðbjóðslegri rottuholu á Spáni! Læt þetta samt ekki stoppa mig í því að hitta hana Glindu mína.

Adios amigos...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home